Tekjuaukning Hallgrímskirkju af ferðum upp í turn kirkjunnar jukust um ríflega 77 milljónir króna á síðasta ári og námu þær í heildina 238 milljónum. Til samanburðar þá voru tekjurnar af ferðum upp í turninn árið 2010 einungis 27,2 milljónir, svo þær hafa hækkað um 775% að því er Fréttablaðið greinir frá.

Skilaði Hallgrímskirkjusókn 81 milljón króna tekjuafgangi á síðasta ári, en heildartekjur Hallgrímssóknar námu 334,7 milljónum króna á síðasta ári að því er fram kemur í yfirliti Ríkisendurskoðunar.

Heildartekjur sóknarinnar af sóknargjöldum sem ríkið innheimtir námu 33,6 milljónum, 29 milljónir komu af öðrum framlögum og styrkjum og aðrar tekjur sóknarinnar námu rúmlega 272 milljónum króna.

Í þeim lið var mesta aukningin á milli ára, en árið 2015 nam hann 195 milljónum. Sundurliðun sýnir að tekjur af ferðum upp í turninn til að njóta útsýnis skiluðu 238,244.653 krónum, sem jafngildir að 264.716 einstaklingar hafi greitt fullt gjald í turninn. Það gerir um 725 fullorðna einstaklinga, miðað við 900 króna aðgangseyrir, á dag allt árið í fyrra. Börn  6 til 16 ára greiða 100 krónur upp í turninn.

Jóhanna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju segir tekjurnar af ferðunum hafi verið umfram áætlanir. „Það er vegna fjölgunar ferðamanna sem kjósa að greiða fyrir ferð á útsýnispallinn í kirkjuturninum,“ segir Jóhanna. „Tekjur hafa verið nýttar til að endurgreiða lán vegna turnviðgerða 2008, kostnað við rekstur og viðhald kirkjunnar auk kostnaðarsamra steypuviðgerða á hliðarálmum kirkjunnar.“