Heildarkostnaður við ferðir þingmanna og embættis forseta Alþingis jókst um 40%, úr 43,1 milljón króna í 60,5 milljónir króna á verðlagi hvors árs, milli áranna 2017 og 2018, að því er fram kemur í svörum við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar alþingismanns.

Þar af jókst kostnaður við ferðir þingmanna um tæplega 35%, úr 38,9 milljónum króna árið 2017, í 52,4 milljónir króna árið 2018, en um 90% hjá embætti forseta þingsins, eða úr 4,2 milljónum í 8 milljónir á sama tíma.

Kostnaður ársins 2018 er þó á svipuðum nótum og árið 2016, en þá var hann í heildina 59,8 milljónir króna, þar af fóru tæplega 6,4 milljónir króna til embættis forseta Alþingis.

Árið þar áður, 2015, var kostnaðurinn töluvert hærri, eða 74,4 milljónir króna, þar af 8,5 milljónir til forsetaembættis þingsins, en árin þar áður var heidlarkostnaðurinn á svipuðum slóðum eða 61,8 milljónir, 66,4 milljónir og 64 milljónir króna.

Árin fyrst eftir kreppu voru þó heldur magrari fyrir ferðaglaða þingmenn, en árið 2009 fóru 32,5 milljónir króna í heildina í ferðalög, 44 milljónir árið 2010 og 50,9 milljónir árið 2011.

Í fyrirspurninni spurði Þorsteinn, sem er þingmaður Viðreisnar, og ráðherra í ríkisstjórninni sem sat mest allt árið 2017, hver kostnaður Alþingis hafi verið síðustu 10 ár, sundurliðuð eftir árum. Þá annars vegar vegna utanlandsferða þingmanna á vegum þingsins og hins vegar utanlandsferða embættis forseta Alþingis.

Á vef Alþingis má sjá tölurnar nánar en þar segir að undir kostnað við ferðir þingmanna falli jafnframt kostnaður við ferðir starfsfólk sem þeim fylgi, sem og að ferðakostnaður þingmanna sem eru í fylgd með forseta Alþingis, ásamt starfsfólki, falli undir kostnað við embættið.