*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 18. desember 2020 19:05

Ferli rammaáætlunar „martröð“

Orkumálastjóri fer hörðum orðum um rammaáætlun. Ótímabundin friðlýsing skerði rétt komandi kynslóða til lýðræðislegrar ákvarðanatöku.

Ritstjórn
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri leggur til að horfið verði frá hinni martraðakenndu rammaáætlun.
Haraldur Jónasson

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, talar tæpitungulaust í jólaerindi sínu þar sem hann drepur á mörg málefni líðandi stundar, meðal annars rammaáætlun og umræðu um hálendisþjóðgarð.

Orkumálastjóri segir þannig frá því að þegar hann hóf störf á Orkustofnun í ársbyrjun 2008 hafi vinna við annan áfanga rammaáætlunar verið að hefjast. Hann lýsir því hvernig þá hafi verið breiður hópur fulltrúa í verkefnisstjórn og umfjöllun hafi þá komist á það stig að hægt væri að ná niðurstöðu með meirihlutasamþykkt Alþingis.

Þá hafi grundvöllur rammaáætlunar verið treystur með lagasetningu, en þykir orkumálastjóra miður að lögin hafi falið í sér að framkvæmd þeirra yrði falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis, líkt og áður hafði verið.

Af sem áður var

Í þriðja áfanga hafi verkefnastjórnin verið fámennari og einsleitari en áður og sama hafi gilt um faghópana. „Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf sem var illskiljanleg fyrir þá sem stóðu utan við starfið. Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun."

Segir orkumálastjóri enda snemma hafa orðið ljóst að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu áfangans og að nú sé vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið.

„Ég held við verðum að gera okkur ljóst að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð. Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir."

Friðlýsing skerði rétt komandi kynslóða til ákvarðanatöku

Orkumálastjóri bendir á að það væri einföld leið að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir sem fara með umhverfis- og skipulagsmál til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi.

„Ef þessar stofnanir telja að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo að hugsanlegar framkvæmdir geti verið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt móratóríum eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda."

Að mati orkumálastjóra gæti slík stöðvun staðið í fimm, tíu eða tuttugu ár eftir því hve álitaefnin vega þungt eða hvort þau krefjist dýpri athugana og þekkingar. Alþingi verð svo að afgreiða tillögurnar innan ákveðins frest, eigi ákvörðunin að öðlast gildi.

„Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma."

Saknar umræðu um áhrif hálendisþjóðgarðs á loftslagsmál

Orkumálastjóri segir umræðu um hálendisþjóðgarð hafa þroskast mikið og að henni sé ekki lengur handstýrt af fámennum, einsleitum hópi. Hann saknar þó umræðu um áhrifa á loftslagsmál í því samhengi. Hann segir menn gagnrýnilaust tala niður jákvæð áhrif af því að nýta vistvæna orku hér á landi til iðnaðarframleiðslu.

„Með illa dulinni þórðargleði lýsa menn væntingum sínum um að álver á Íslandi gætu þurft að loka sem þá myndi tryggja okkur nægilegt rafmagn til komandi orkuskipta án þess að byggja fleiri virkjanir. Hin hliðin á peningnum er nefnilega að ef það þarf að loka álveri hér þá er það vegna þess að það hefur orðið undir í samkeppni við álver rekið á kolaorku annars staðar á jarðarkringlunni. Allur okkar ávinningur af orkuskiptum sem drifin væru áfram af orku sem væri þannig fengin myndi glatast fimm sinnum í þeim skiptum."