Ítalski bílaframleiðandinn Ferrari byggir ásamt fleirum stærsta innanhússskemmtigarð heims í Abu Dhabi. Garðurinn ber heitið Ferrari World. Stærð garðsins verður um 200.000 fermetrar. Ráðgert er að opna hann fyrir almenningi í október á þessu ár en hundrað daga niðurtalning hófst í dag. Vegleg vígsluhátíð verður haldin þann 28. október og hefst á miðnætti.

Bygging Ferrari World hófst árið 2007 og sér nú fyrir endann á verkefninu. Undir risastóru þaki skemmtigarðsins verða hin ýmsu tæki til að skemmta gestum hans. Má þar nefna hraðskeiðasta rússíbana heims en hámarkshraði hans verður um 240 km á klukkustund. Einnig mun gestum standa til boða að horfa á kvikmynd í fjórvídd, að því er kemur fram á heimasíðu Ferrari World.

Eins og við var að búast verður garðurinn undirlagður Ferrari ökutækjum. Þá mun sextíu metra hátt Ferrari merki prýða þak hússins en þakið sjálft er byggt eftir útliti eins frægasta ökutækis framleiðandans, Ferrari GT.