Bandarískt dótturfyrirtæki ítalska sportbílaframleiðandans Ferrari, Ferrari North America Inc., hefur innkallað alla Ferrari California T blæjubíla sem framleiddir voru á tímabilinu 8. september til 11. nóvember á þessu ári.

Eldsneytisleiðsla í vélinni mun ekki hafa verið fest nægilega vel og er eldhætta af leiðslunni. Ferrari segir ástæðuna vera framleiðslugalla í íhlut, sem framleiddur er af öðru fyrirtæki.

Bílinni kostar ríflega 230.000 dali í Bandaríkjunum, andvirði um 30 milljóna króna. Ekki mun þetta þó hafa áhrif á marga einstaklinga, því talið er að innkalla þurfi um 185 bifreiðar og verður skipt um hina gölluðu leiðslu þeim að kostnaðarlausu.