Þótt kreppa hafi hrjáð Ítali um nokkurt skeið gegnir öðru máli um bílaframleiðandann Ferrari. Þvert ofan í bölmóð og svartsýni skilaði fyrirtækið 100 milljóna evra hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Tekjur fyrirtækisins af bílasölu námu 1,2 milljörðum evra á þessu sex mánaða tímabili. Fyrirtækið seldi 3.664 bíla og hefur annað eins aldrei sést í sögu Ferrari.

Hagnaðurinn nú er 10% meiri en á sama tíma í fyrra og tekjurnar 11,2% meiri.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir forstjóranum Amedeo Felisa að útlit sé fyrir því að árið verði glimrandi. Hann bendir á að Ferrari-bílarnir seljist vel í Kína, Rússlandi og í Miðausturlöndum. Tekjur Ferrari koma að langmestu leyti utan landsteina og aðeins 7% frá heimamarkaði.

Til samanburðar við tölurnar á fyrstu sex mánuðum ársins seldi Ferrari 7.195 bíla á öllu síðasta ári, sem var metár. Ef sala síðasta árs er skipt jafnt upp hefur Ferrari selt fleiri bíla það sem af er ársins.

BBC segir Ferrari ekki hafa látið kreppuna halda aftur af sér og dælt út nýjum gerðum Ferrari-bíla. Nýjasta gerðin, F12berlinetta, kemur á markað í næsta mánuði en búist er við að nýja kerran muni heilla viðskiptavini.