Lið Mercedes AMG vann Formúlu 1 mótaröðina með miklum yfirburðum í ár. Ökumenn liðsins, Lewis Hamilton og Nico Rosberg, urðu í fyrsta og öðru sæti. Ferrari-liðinu gekk hins vegar illa. Fernando Alonso varð í 6. sæti og Kimi Raikkonen varð í tólfta sæti.

Í liðakeppninni varð Ferrari í 4. sæti. Verðmæti liðsins er talið nema 1,35 milljörðum dala, um 155 milljörðum króna. Verðmætið er byggt á veltu liðsins, sem stendur aðallega saman af auglýsingasamningum annars vegar og hins vegar hlutdeild í afkomu mótaraðarinnar. Þar má nefna sjónvarpsréttindi, sigurlaun á mótum og þóknanir fyrir að fá að halda mót.

Ferrari eyðir mest allra liða, um 400 milljónum dala, en skilar þó um 60 milljónum dala í hagnað á ári. Liðið hefur yfir 200 milljónir dala í tekjur frá þremur fyrirtækjum, olíufélaginu Shell, spænska bankanum Santander og Philip Morris. Forbes segir að Ferrari fái um 160 milljónir frá síðastnefnda fyrirtækinu, en það framleiðir Marlboro vindlinga. Sá samningur er sérstakur fyrir þær sakir að auglýsingar á tóbaki í F1 hafa verið bannað frá árinu 2005. Reyndar tók bannið fyrst aðeins til Evrópu. Þá tóku liðin tóbaksauglýsingarnar af sem birtust svo í keppnum utan Evrópu. Síðan hættu þær að alveg að birtast. Vafalaust sér Philip Morris einhvern hag af þessu, t.d. í þeim löndum þar sem má auglýsa tóbak.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .