„Það er hagsmunamál fyrir neytendur í landinu að fá að neyta fersks kjöts sem er flutt inn ferskt en ekki frosið,“ segir Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Ferskra kjötvara ehf., í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að fyrirtækið hafi höfðað bótamál á hendur íslenska ríkinu vegna tjóns sem það varð fyrir þegar innflutningi á 83 kílóum af ferskum, hráum nautalundum var synjað. Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði í gær að leitað yrði til EFTA-dómstólsins um hvort hömlur á slíkum innflutningi séu í andstöðu við EES-samninginn.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilaði innflutninginn að því tilskildu að kjötinu fylgdi vottorð um að vörurnar hefðu til dæmis verið geymdar í minnst 18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Það var hins vegar ógerlegt og skemmdist kjötið þar sem það fékk ekki tollafgreiðslu.