Sölufélag Austur Húnvetninga (SAH) hefur hafið útflutning á fersku lambakjöti til Evrópu en félagið náði nýverið samningi við kjötheildsala í Þýskalandi eftir um árs undirbúning. Heildsalinn sérhæfir sig í að að selja ferska matvöru til betri hótela og veitingahúsa í Evrópu og selur meðal annars um 40 úrvalsveitingahúsum í Moskvu hráefni sem fer til þeirra með flugi á degi hverjum. Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri SAH segir að um tilraun sé að ræða, en hún lofi góðu fyrir framhaldið. "Ef vel gengur er stefnan að auka þetta ár frá ári."

Kjötið er flutt út með flugi einu sinni í viku, og fara um 1.200 - 1.500 kíló í viku frá SAH til heildsalans í Frankfurt. Fyrsta sendingin fór í byrjun júlí en síðasta sendingin í bili fer út í byrjun nóvember. Sigurður segir að á þessum tíma sé lítið framboð af kjöti frá Nýja-Sjálandi og markaðsaðstæður því ákjósanlegar. "Þetta er lítið magn og hátt verð, en gæðin eru líka mikil," segir Sigurður en útlit er fyrir að allt að 15 tonn af fersku kjöti fari á þennan markað í fyrstu atrennu. "Þarna er smuga og við teljum að þessi útflutningur geti átt sér framtíð." Nær allt kjötið af lambinu er sent út til Þýskalands, aðeins slögin verða eftir heima og Evrópubúar munu vilja minna af beinum í kjötinu en Íslendingar og því er kjötið verkað örlítið öðruvísi en fyrir mörlandann.