Það er erfitt að henda reiður á það hvers konar miðill vefritið Blær er, sem í gær gaf út sína fjórðu útgáfu á vefsvæðinu blaer.is. Meðal þess sem þar má finna eru samtöl á milli ólíkra einstaklinga, umfjallanir um sirkusa, listahátíðir, heitar laugar og næturtúrisma svo eitthvað sé nefnt. Umsjónarmenn þess eru flestir nýskriðnir úr menntaskóla og reynsla þeirra flestra er einungis af útgáfu menntaskólatímarita en vandað og stílhreint yfirbragð miðilsins ber þess alls ekki merki.

„Það leið alveg hálft ár frá því að hugmyndin kviknaði og þar til hugmyndafræði blaðsins varð fullunnin,“ segir Birna Ketilsdóttir Schram, ritstjóri Blæs, þegar hún hitti blaðamann ásamt Ragnhildi Ástu Valsdóttur, blaðamanni vefritsins. „Auðvitað var útgangspunkturinn alltaf sá sami en það fór rosalega mikil vinna í að finna út hvernig hægt væri að gera þetta sem notendavænast. Þannig að þetta sé fallegt að horfa á og þægilegt. Þetta er nefnilega ekki sniðið að einhverju tæknifólki sem skilur allt strax heldur er þetta líka fyrir fólk sem fæddist ekki með Snapchat í hendinni,“ segir Birna.

Ekki stelpublað

Aðstandendum Blæs þótti öllum rík þörf fyrir nýjan miðil sem væri að sinna því sem þeir höfðu áhuga á. Að sögn Birnu og Ragnhildar gefur nafnið til kynna að blaðið sé ferskur andvari í íslenska útgáfuflóru en tákn þess er veðurtákn og vísar einnig beint í það þema. „Það voru margir sem héldu að þetta yrði stelpublað vegna þess að við erum mestmegnis stelpur sem stöndum á bak við þetta. Mér fannst Blær einmitt gefa til kynna að svo væri ekkert endilega,“ segir Birna um nafn blaðsins. Blaðið kemur út annan hvern miðvikudag og er sem fyrr segir aðgengilegt ókeypis á slóðinni blaer.is. „Við vorum lengi að velta því fyrir okkur hvernig við ættum að gera þetta. Það er frábært að við enduðum á að gefa þetta út á tveggja vikna fresti vegna þess að þá getum við lagt meiri vinnu í að vanda til verksins. Við erum flest nýútskrifuð úr menntaskóla þannig að við erum ekkert sérstaklega reynslumikil. Við þurfum alveg smá tíma til að læra að gera þetta allt. Þetta er einn besti skóli sem ég get ímyndað mér að fara í,“ segir Ragnhildur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.