Kokkurinn og ísgerðarmaðurinn Gylfi Þór Valdimarsson opnaði ísbúðina Valdísi í verbúðunum í Grandagarði þann 1. júní. Viðtökurnar segir hann framar öllum vonum og nú þegar er kominn hópur fastakúnna. Boðið er upp á ítalskan gelato-ís, sorbet og rjómaís og eru allar tegundir gerðar frá grunni á staðnum sem og vöffluformin sem ísinn er borinn fram í. „Ég bý til ferskan ís á hverjum degi og þess vegna næ ég að vera með svona mikla teygju í honum. Hann fer úr ísvélinni í snöggfrysti og svo beint í borðið og nær því ekki að kristallast eins og ís sem gerður er á einum stað og fluttur annað,“ segir Gylfi.

Aðspurður hvort til standi að opna aðra ísbúð segir Gylfi tímann þurfa að leiða það í ljós. „Ef ég gæti klónað mig þá já, en ef við erum áfram með svona ánægða viðskiptavini þá er aldrei að vita,“ segir Gylfi.

Nánar er fjallað um ísbúðina Valdísi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.