Lífeyrissjóðurinn Festa telur að fjárfestar hafi ekki allir setið við sama borð í hlutafjárútboði Eimskips sem lauk í gær. Sjóðurinn hefur því sent erindi til fjármálaeftirlitsins þar sem óskað er eftir rannsókn. Var sagt frá þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins .

Hlutafjárútboði Eimskips fyrir fagfjárfesta lauk í gær og umframeftirspurn var eftir bréfunum samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Nokkrir stórir lífeyrissjóðir tóku ekki þátt í útboðinu og settu þeir m.a. fyrir sig kaupréttarsamninga við yfirmenn hjá Eimskipi.

Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Festu segir í samtali við Ríkisútvarpið að svo virðist sem menn hafi ekki allir setið við sama borð. „Við höfum spurnir af því að í aðdraganda útboðsins í gærmorgun hafi verið hringt í einstaka fjárfesta og þeim gefinn kostur á að gera tilboð með fyrirvara um það að kaupréttarsamningar æðstu stjórnenda yrðu felldir niður. Við höfum óksað eftir því að Fjármálaeftirlitið rannsaki framkvæmd útboðsins og ef satt reynist þá standa menn ekki jafnfætis í tilboðsgerð og væri það ömurleg byrjun á endurvakningu íslensks hlutabréfamarkaðar,“ segir Gylfi.