Stjórn Festu lífeyrissjóðs hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2008. Samkvæmt niðurstöðu ársreiknings var nafnávöxtun tryggingadeildar sjóðsins neikvæð um 5,6%. Verðbólga á árinu 2008 var 16,4% og því er hrein raunávöxtun deildarinnar neikvæð um 18,8%.

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem miðast við stöðu sjóðsins í lok árs 2008, eru eignir sjóðsins lægri en skuldbindingar sem nemur 8% af heildarskuldbindingum. Þessi staða er innan þeirra marka sem lög og reglur segja til um og er stjórn sjóðsins því ekki skylt að leggja til skerðingu réttinda. Hinsvegar hefur þróun á innlendum og erlendum mörkuðum verið sjóðnum óhagstæð það sem af er ári. Stjórn sjóðsins hefur því ákveðið að fresta ákvörðun um hvort réttindi sjóðfélaga haldist óbreytt til næsta fundar í apríl segir í frétt á vef Landssantaka lífeyrissjóða.

Í árslok 2008 var hrein eign til greiðslu lífeyris um 54,6 milljarðar og lækkaði hún um 0,7 milljarða, eða 1,3% á milli ára. Iðgjöld ársins námu tæpum 3,8 milljörðum, sem er  6,5% aukning frá fyrra ári. Til sjóðsins greiddu á árinu tæplega 16 þúsund sjóðfélagar hjá 1.848 launagreiðendum. Lífeyrisgreiðslur námu 1.5 milljörðum, en það er rúm 14% hækkun frá fyrra ári. Lífeyrisþegar voru 4.830.