Freyja Steingrímsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri yfir upplýsingamálum og viðburðum hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Freyja er með bakgrunn í stjórnmálafræði sem og hagnýtum jafnréttisfræðum en síðustu ár hefur hún unnið við stjórnmála- og upplýsingaráðgjöf fyrir félagasamtök, stéttafélög og stjórnmálaflokka víða um Evrópu og í Bandaríkjunum.

Freyja er sérfræðingur í stafrænni miðlun og hefur umfangsmikla reynslu af kynningarherferðum og viðburðastjórnun að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Freyja mun stýra miðlun upplýsinga til fjölmiðla og markhópa ásamt því að bera ábyrgð á viðburðum miðstöðvarinnar. Hún mun einnig vinna náið með framkvæmdarstjóra og stjórn að stefnumótun og innleiðingu samskiptastefnu.

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu segir þetta afar mikilvægt skref. “Verkefnum Festu og aðildarfélögum hefur fjölgað hratt að undanförnu og því var hafin leit á framúrskarandi einstaklingi í hálft starf til að miðla upplýsingum og skipuleggja viðburði um samfélagsábyrgð fyrirtækja,“ segir Ketill í fréttatilkynningunni.

„Sérstaklega ánægjulegt þótti okkur að sjá hve margir vel menntaðir og hæfileikaríkir einstaklingar sýna því áhuga að vinna að samfélagsábyrgð fyrirtækja.Það endurspeglar aukinn áhuga á málefninu í samfélaginu og þá framtíðarsýn Festu að íslensk fyrirtæki verði þekkt fyrir ábyrgð gagnvart samfélaginu, náttúrunni og þann ávinning sem þau skapa fyrir samfélagið.”