Festi, móðurfélag Krónunnar, N1 og Elko, hefur náð samkomulagi um helstu skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa á öllu útgefnu hlutafé Lyfju hf. Samkomulagið felur í sér að heildarvirði Lyfju sé 7,8 milljarðar króna. Endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félagsins við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að kaupverðið verði greitt með 6,0 milljörðum króna í handbæru fé ásamt afhendingu á 10 milljónum hluta, eða um 3,2% hlut, í Festi sem er um 1,8 milljarðar króna að markaðsvirði miðað við dagslokagengi Festi í Kauphöllinni.

SID, móðurfélag Lyfju, er í 70% eigu framtakssjóðsins SÍA III. Þá eiga félögin Þarabakki ehf., í eigu Daníels Helgasonar, og Kaskur ehf., í eigu Inga Guðjónssonar, 15% hlut hvor um sig, samkvæmt síðasta ársreikningi SID.

„Aðilar samkomulagsins munu í framhaldi af undirrituninni hefja samningaviðræður um kaupin með það að markmiði að komast að samkomulagi um efni endanlegs kaupsamnings,“ segir í tilkynningu Festi.

Samningaviðræðurnar eru sagðar byggja á forsendum og skilmálum samkomulagsins sem undirritað var í dag, að teknu tillits til niðurstaðna áreiðanleikakönnunar hjá Festi. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir því að þeim ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2024.

Áætlanir Lyfju fyrir árið 2023 gera ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA), án IFRS16 áhrifa nemi 1.044 milljónum króna.

„Kaupin eru hluti af framtíðarsýn Festi um að bjóða upp á breitt vöruúrval nauðsynjavara á hagkvæmu verði um allt land. Með sölu lyfja og lækningavara getum við betur þjónað viðskiptavinum okkar ásamt því að taka þátt í að stuðla að bættri lýðheilsu í landinu,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, sem mætti formlega aftur til leiks í dag eftir fæðingarorlof.

„Lyfja er traust fyrirtæki sem hefur lagt ríka áherslu á fræðslu og fyrirbyggjandi heilsuvernd. Þessi áhersla kallast á við framtíðarsýn félaga innan Festi. Með rótgrónu og sterku vörumerki Lyfju og því reynslumikla fagfólki sem þar starfar verður hægt að byggja enn eina sterka stoð innan samstæðu Festi.“