Smásölu- og orkusamsteypan Festi auglýsir nú eftir nýjum forstjóra og gefur tveggja vikna umsóknarfrest. Þetta kemur fram í auglýsingu í atvinnublaði Fréttablaðsins í dag.

Starfið er sagt bjóða upp á spennandi tækifæri framundan í tengslum við umhverfismál, orkuskipti, stafræna umbreytingu, þróun fasteignasafns og lóða og „vaxandi þátttöku félagsins í daglegu lífi hins mikla fjölda viðskiptavina þess“.

Nýr forstjóri skal búa yfir víðtækri reynslu af stjórnun og rekstri, stefnumótandi hugsun, lipurð og færni í mannlegum samskiptum, drifkrafti, metnaði og getu til að byggja upp liðsheild, sterkri samfélagsvitund og brennandi áhuga á umhverfinu, viðskiptum og íslensku samfélagi.

Umdeild uppsögn Eggerts

Sem kunnugt er var Eggerti Þór Kristóferssyni óvænt sagt upp störfum í byrjun júní eftir sjö ár í starfi með þeim skýringum að það þætti hæfilegur tími á forstjórastóli. Síðar kom fram að ástæðan byggði á því mati stjórnar að það „stæði á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar“.

Upphaflega var tilkynnt um að hann hefði sjálfur sagt upp, og eftir að annað kom á daginn var boðað til hluthafafundar og stjórnarkjörs til að bregðast við þeirri óánægju sem upp var komin meðal nokkurs hóps hluthafa félagsins.

Nokkur hiti var í fundinum en svo fór í stjórnarkjörinu að Guðjón Reynisson, formaður stjórnar hélt því sæti og varaformaðurinn Margrét Guðmundsdóttir hélt stjórnarsæti sínu, en nýir einstaklingar komu inn í stjórn félagsins í stað annarra sem þar höfðu átt sæti fyrir fundinn.

Eggert lét af störfum í byrjun þessa mánaðar, en reksturinn hefur gengið vel upp á síðkastið og skilaði 1,8 milljarða króna hagnaði á fyrri helmingi þessa árs.