Stjórn Festi hefur boðað hluthafafund áf fimmtudaginn 14. júli næstkomandi þar sem kjörin verður ný stjórn. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segist stjórnin ekki víkja sér undan málefnalegri gagnrýni um hvernig staðið var að uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra „en telur að horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins“.

„Vöxtur og viðgangur Festi er mikilvægari en einstaka stjórnendur þess eða stjórn. Það er ósk stjórnar að boðaður hluthafafundur megi verða til þess að sætta ólík sjónarmið svo unnt sé að halda áfram þeirri vegferð sem fyrir höndum er og skipan nýs forstjóra er órjúfanlegur hluti af,“ segir í yfirlýsingunni.

Í upphafi fundarins mun stjórn félagsins segja af sér til að tryggja að stjórnarkjör fari fram. Hluthafar muni kjósa um nýja eða breytta stjórn eða endurnýja umboð sitjandi stjórnar.

Sjá einnig: Stjórn Festi svarar fyrir sig

„Festi er stórt og samfélagslega mikilvægt félag á íslenskum neytenda- og fyrirtækjamarkaði sem hefur margvíslegum skyldum að gegna gagnvart starfsfólki og viðskiptavinum. Félagið býr yfir afburðahópi mjög hæfs starfsfólks sem er spennt fyrir framtíðinni. Stjórn og hluthafar bera sameiginlega ríka ábyrgð á því að skapa starfsfólki frið til að sinna störfum sínum.“

Tillaga um fleiri en fimm stjórnarmenn

Tilnefningarnefnd Festi mun taka við framboðum til stjórnar til kl. 10 á þriðjudaginn 28. júní. Nefndin mun skila skýrslu sinni og tillögu um stjórnarmenn eigi síðar en kl. 10 þriðjudaginn 5. júlí. Margrét Guðmundsdóttir, varaformaður stjórnar Festi, mun ekki taka þátt í störfum nefndarinnar.

„Fráfarandi stjórn Festi hf. hefur lagt til við tilnefningarnefnd að hún geri tillögu um fleiri stjórnarmenn en fimm í þetta sinn svo tryggt sé að hluthafar geti kosið á milli frambjóðenda og ekki verði sjálfkjörið. Fulltrúi stjórnar í tilnefningarnefnd mun ekki að þessu sinni taka þátt í störfum nefndarinnar.“

Í aðdraganda aðalfundar Festi í vor buðu 22 einstaklingar sig fram í stjórn félagsins, þar með talið framboð þriggja stjórnarmanna sem gáfu áfram kost á sér. Allir frambjóðendur sem hlutu ekki tilnefningu frá nefndinni drógu framboð sitt til baka og var stjórn félagsins því sjálfkjörin.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir er formaður nefndarinnar. Ásamt henni sitja Tryggvi Pálsson og Margrét Guðmundsdóttir sem líkt og fyrr segir tekur ekki þátt í störfum nefndarinnar fyrir komandi hluthafafund.