Gengi bréfa Festi hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,50%, upp í 143,50 krónur, í jafnframt langsamlega mestu viðskiptunum eða fyrir 1.397 milljónir króna. Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði í dag námu 3,8 milljörðum króna, en við þau lækkaði Úrvalsvísitalan um 0,74%, niður í 2.133,59 stig.

Þessi hækkun Festi, sem rekur bæði matvöruverslanir og bensín líkt og Hagar gera, var þar með meiri en hjá síðarnefnda félaginu sem hafði á tímabili í dag náð 3,6% hækkun að því er Fréttablaðið greindi frá í hádeginu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær nærri tvöfaldaðist hagnaður Haga milli ára, en eiginfjárhlutfallið lækkaði, á þriðja ársfjórðungi félagsins, og jafnframt þeim fyrsta sem rekstur Olís kom inn í bækur þess.

Við dagslok var hækkun Haga sú þriðja mesta eða um 1,80%, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi eða fyrir 535,3 milljónir króna og endaði gengi bréfa félagsins í 50,90 krónum.

Hækkun Símans var hins vegar sú næst mesta eða um 1,87%, upp í 5,44 krónur, í 190 milljóna viðskiptum. Næst mestu viðskiptin voru aftur með bréf VÍS, eða fyrir 687 milljónir króna en bréf félagsins hækkuðu um 0,21%, upp í 11,95 krónur.

Marel lækkaði svo mest, annan daginn í röð , eða um 1,45%, niður í 613 krónur, í 227 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 1,22%, í 81,30 krónur, í 145 milljóna króna viðskiptum.

Loks var lækkun bréfa Eimskipafélags Íslands sú þriðja mesta, eða um 0,80%, í þó ekki nema 50 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins 185,0 krónum.

Gengi gjaldmiðla misvísandi

Gengi íslensku krónunnar styrktist gagnvart bæði Bandaríkjadal og norsku krónunni í dag, en veiktist gagnvart öðrum helstu viðskiptamyntum.

Þannig nam styrking evrunnar gagnvart krónunni 0,15% og kostar hún nú 137,35 krónur, en styrking breska sterlingspundsins nam 0,44%, upp í 161,53 krónur. Bandaríkjadalur lækkaði hins vegar um 0,02% gagnvart krónu og fæst nú á 123,71 krónu.