Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, hagnaðist um 5,0 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 2,3 milljarða árið 2020. Heildarafkoma Festi nam hins vegar 6,6 milljörðum vegna endurmats á fasteignum að frádregnum tekjuskatti að fjárhæð 1,6 milljörðum króna en gangvirðisbreytingar á fasteignum voru jákvæðar um 2.026 milljónir. Stjórn Festi leggur til að greiddar verði út 1,6 milljarðar króna í arð.

Velta félagsins jókst um 14,5% á milli ára og nam 98,7 milljörðum króna. Framlegð af vöru- og þjónustusölu jókst um 19% og nam 24,6 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar (EBITDA) jókst úr 7,1 milljarði í 10,1 milljarð á milli ára.

„Rekstur Festi gekk vel á nýliðnu rekstrarári en árið markaði viss tímamót þar sem öll fyrirtæki samstæðunnar skiluðu sinni bestu afkomu frá upphafi,“ segir Eggert Þór Kristófersson , forstjóri Festi, í tilkynningu sem félagiðs sendi frá sér í gærkvöldi.

Eignir Festi námu 86 milljörðum í loks árs, samanborið við 83,4 milljarða í árslok 2020. Eigið fé samstæðunnar hækkaði úr 29,8 milljörðum í 33,9 milljarða á milli ára.

Krónan hagnast um 1,6 milljarða

Velta matvöruverslunarinnar Krónunnar jókst um 8,5% á milli ára og nam 46,8 milljörðum króna á síðasta ári. EBITDA hagnaður Keðjunnar jókst um meira en fjórðung á milli ára og nam 3,9 milljörðum. Krónan hagnaðist um 1,6 milljarða eftir skatta.

Rekstur olíufyrirtækisins N1 batnaði verulega á milli ára. Velta N1 jókst um 21% frá fyrra ári og nam 37,8 milljörðum. EBITDA hagnaður félagsins jókst úr 3,0 milljörðum í 4,2 milljarða á milli ára. Hagnaður N1 eftir skatta nam 705 milljónum en félagið skilaði 220 milljóna tapi árið áður.

Einnig mátti sjá veltu raftækjaverslunarinnar Elko aukast töluvert eða um 17,7% og nam 15,4 milljörðum. EBITDA hagnaður Elko fór úr 1,2 milljörðum í 1,7 milljarða. Hagnaður Elko nam 912 milljónum samanborið við 543 milljóna hagnað árið 2020. Í fjárfestakynningu Festi segir að markaðshlutdeild Elko á sínum markaði hafi numið 49% á síðasta ári, sem er 1,8% aukning frá fyrra ári.