Smásölufyrirtækið Festi hefur fært EBITDA afkomuspá sína upp um 600 milljónir króna. Í afkomuviðvörun Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, segir að rekstur allra félaga samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi hafi verið umfram áætlanir.

Spá félagsins á rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) hefur því verið færð úr 8,8-9,2 milljörðum í 9,4-9,8 milljarða króna. Festi hafði þegar hækkað afkomuspá sína um 1,3 milljarða í tveimur lotum fyrr í ár, fyrst um 400 milljónir eftir fyrsta fjórðung og svo um 900 milljónir vegna annars fjórðungs. Alls hefur félagið því hækkað afkomuspána fyrir árið 2021 um 1,9 milljarða frá upphaflegu áætlun sinni.

Nýja afkomuspáin tekur ekki með söluhagnað af fjórum fasteignum sem voru seldar í sumar, þar af voru þrjár til fasteignafélagsins Reita og ein til Rúmfatalagersins . Fyrirvörum um þau viðskipi hafa ekki verið aflétt. Áætlaður söluhagnaður Festi af þessum fjórum fasteignum var 469 milljónir.

Árshlutareikningur fyrir þriðja ársfjórðung verður birtur 28. október næstkomandi.