Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,67%, niður í 2.107,30 stig, í 1,9 milljarða heildarviðskiptum á hlutabréfamarkaði í dag.

Langflest fyrirtæki lækkuðu í viðskiptum dagsins, en fimm hækkuðu og fjögur stóðu í stað. Mest hækkun var á gengi bréfa Festi, eða um 1,87%, upp í 136,50 krónur, í 346 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Brims, eða um 1,28%, en einungis í viðskiptum fyrir nokkra þúsundkalla, og fór gengi bréfanna upp í 39,60 krónur. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Skeljungs, eða um 1,08% í 197 milljóna króna veltu, og nam lokagengi félagsins 8,42 krónum.

Mesta veltan var með bréf Marel, eða fyrir 403 milljónir króna en gengi bréfa félagsins lækkaði um 0,49%, niður í 614 krónur.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Origo, eða fyrir 2,27%, niður í 25,85 krónur, í þó ekki nema 18 milljóna króna veltu. Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,12%, og fór gengi bréfa flugfélagsins niður í 7,38 krónur í 103 milljóna króna veltu.

Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,86%, í litlum viðskiptum eða fyrir 29 milljónir króna, og fór lokagengið niður í 10,55 krónur.

Breska pundið á 161 krónu

Evran styrktist gagnvart íslensku krónunni, eða um 0,29%, og fæst hún nú á 136,86 krónur, sama gerði breska pundið, eða um 0,63%, í 160,94 krónur, meðan Bandaríkjadalur hækkaði um 0,16% í 122,31 krónur.

Einnig styrktu svissneski frankinn og danska og norska krónan gagnvart krónunni, en japanska jenið og sænska krónan lækkuðu hins vegar gagnvart íslensku krónunni.