Gengi bréfa Festi hækkaði mest allra félaga í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði, eða um 3,5%. Mestu viðskiptin voru einnig með bréf Festi og námu 654 milljónum króna.

Heildarvelta á aðalmarkaði kauphallarinnar nam 2,7 milljörðum króna. Nokkur velta var með bréf Arion og Íslandsbanka. Námu viðskipti með bréf Íslandsbanka 450 milljónum og bréf Arion 375 milljónum.

Skel fjárfestingafélag lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, eða um 2,58% í einungis 24 milljóna viðskiptum. Ölgerðin og Nova, sem voru bæði skráð á markað nú í júní, lækkuðu í viðskiptum dagsins. Ölgerðin um 1,6% og Nova um 0,2%.

Á First North lækkuðu bréf Play um 0,6% í tveggja milljón króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 15,75 krónum á hlut sem er talsvert lægra en útboðsgengið sem stóð almennum fjárfestum til boða í hlutafjárútboði félagsins í júní 2021. Í útboðinu var verð á hlut 18 krónur fyrir áskriftarleið A, sem náði til boða undir 20 milljónum króna, og 20 krónur á hlut í áskriftarleið B fyrir boð yfir 20 milljónum króna.