Eignarhaldsfélagið Festi, sem meðal annars á verslunarfyrirtækið Kaupás, skilaði 1.009 milljóna króna hagnaði á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2015. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Í lok febrúar 2014 keypti Festi allt hlutafé fimm félaga af Norvik hf. Jafnframt keypti Festi allt hlutafé tveggja fasteignafélaga af Smáragarði ehf. Með kaupunum tók Festi yfir rekstur Kaupáss ehf., sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, Elko ehf., ISP á Íslandi ehf., EXPO Kópavogi ehf. og Bakkans vöruhótels ehf., auk fasteignafélaganna tveggja, Festi fasteignir ehf. og Höfðaeignir ehf.

Eignir fyrirtækisins námu 33,4 milljörðum króna í lok tímabilsins. Þar af nema óefnislegar eignir, þ.e. viðskiptavild og óefnislegar eignir tilkomnar vegna kaupa félagsins á dótturfélögum, 11,1 milljarði króna. Skuldir námu 23,5 milljörðum króna í lok ársins og var eigið fé félagsins því 9,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins nam 29%.

Stjórn félagsins leggur til að hagnaður fjárhagsársins verði fluttur til næsta árs. SF V slhf. á nær allt hlutafé í fyrirtækinu, en stærsti eigandi þess er SÍA II með 27,4% hlut, en Holdor ehf. kemur þar á eftir með 12% eignarhlut. Stærsti hluthafi SÍA II er Gildi lífeyrissjóður með 15,9% eignarhlut.