Festi, móðurfélag N1, Krónunnar, og Elko, hagnaðist um 525 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi. Hagnaðurinn dróst saman um 24 milljónir eða um 4,4% milli ára. EBITDA spá félagsins er óbreytt fyrir árið 2020 og er á bilinu 7,1 til 7,7 milljarðar. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Festi .

Sala félagsins nam 20,6 milljörðum samanborið við 21,4 milljarða árið áður. Framlegð af vöru- og þjónustusölu jókst um tæp 4% milli ára og nam 5,2 milljörðum. EBITDA félagsins lækkaði hins vegar um 10% milli ára, sem fyrirtækið rekur til áhrifa Covid takmarkana, og var um 1,7 milljarðar á ársfjórðungnum.

Laun og launatengd gjöld samstæðunnar námu 2,7 milljörðum og hækkuðu um 4,7% frá fyrra ári. Fjöldi stöðugilda var 1.109 og hefur þeim fækkað um 7% milli ára. Í uppgjörinu segir að aukinn launakostnaður af völdum Covid hafi verið um 117 milljónir á fjórðungnum.

Annar rekstrarkostnaður var 1,1 milljarður og lækkaði um 122 milljónir milli ára. Nettó fjármagnskostnaður var 473 milljónir króna samanborið við 536 milljónir í fyrra, en lækkunin skýrist af lægri vöxtum og gengishagnaði.

Eignir félagsins námu 82,4 milljörðum í lok júnímánaðar en þar af var viðskiptavild um 14,7 milljarðar. Eigið fé Festi nam 29,3 milljörðum og skuldir voru 53,2 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 35,5% í lok fjórðungsins. Handbært fé nam 4,3 milljörðum í lok tímabilsins.

Sala dagvöru innan samstæðunnar nam 11,8 milljörðum á öðrum ársfjórðungi og jókst um tæplega 1,3 milljarða milli ára. Sala á eldnseyti og rafmagni dróst hins vegar saman um 38% milli ára og nam 4,2 milljörðum á tímabilinu, en samdrátturinn skýrist af „lægra eldsneytisverði á heimsmarkaði og færri seldum lítrum“.

Góð frammistaða Krónunnar og Elko en N1 undir væntingum

Tekjur N1 námu samanlagt 14,2 milljörðum á fyrri helmingi ársins en það er um 19% samdráttur frá fyrra ári. Fyrirtækisins tapaði 501 miljón á tímabilinu samanborið við 129 milljóna tap í fyrra. Fram kemur að reksturinn hafi verið undir áætlun á tímabilinu, meðal annars vegna takmarkana tengdum Covid. Rektur N1 sýndi þó jákvæð batamerki í lok annars ársfjórðungsins þegar takmarkanir voru rýmkaðar, segir í uppgjörinu.

Tekjur Krónunnar á fyrstu sex mánuðum ársins voru 20,0 milljarðar, sem er um 14,5% aukning frá fyrra ári. Hagnaður Krónunnar nam 379 milljónum sem er um 159 milljónum meira en árið áður.

Tekjur Elko hækkuðu sömuleiðis um 14% á fyrri helmingi ársins og námu 5,5 milljörðum.  Hagnaður raftækjaverslunarinnar nam 216 milljónum samanborið við 37 milljóna tap árið áður. Tekjur af öðrum fyrirtækjum samstæðunnar námu 3,4 milljörðum.

„Við erum að berjast saman í gegnum heimsfaraldur og í því ljósi erum við mjög ánægð með niðurstöðu annars ársfjórðungs 2020, sem var í takt við okkar væntingar, segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, og þakkar starfsfólki í leiðinni.

„Um 15% söluaukning var í Krónunni og ELKO á milli ára og rekstur N1 er ásættanlegur þrátt fyrir minni umferð, fækkun ferðamanna og minni umsvif í sjávarútvegi.  Kaup okkar á Íslenskri orkumiðlun og Ísey Skyr Bar munu styrkja okkur enn frekar til að sækja fram. Við erum með 35,5% eiginfjárhlutfall og sterkt sjóðstreymi. Horfur í rekstrinum eru góðar og félagið vel í stakk búið til að takast á við verkefnin framundan.“