SÍA II, framtakssjóður í rekstri Stefnis, hefur ásamt hópi fjárfesta gengið frá kaupum á hluta af innlendri starfsemi Norvik í gegnum Festi hf., sem verður nýtt móðurfélag hinna seldu félaga. Með kaupunum tekur Festi yfir rekstur Kaupáss, sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, Elko, Intersport, auglýsingastofunnar Expo og vöruhótelsins Bakkans. Festi kaupir sömuleiðis hluta af fasteignasafni Smáragarðs.

Viðskiptin hafa tekið um ár en Viðskiptablaðið greindi frá því í apríl í fyrra að viðræður væru hafnar á milli Jóns Helga sem hefur um árabil verið kenndur við Byko og Norvik, og SÍA.

Fram kemur í tilkynningu að Festi hf. er í eigu SF V slhf. og eru hluthafar um 30 talsins. SÍA II er stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 27% hlut. Lífeyrissjóðir eru með um 32% hlut, tryggingafélög og sjóðir 15% og einkafjárfestar um 26%. Nýja stjórn Festi skipa Arnar Ragnarsson, Guðjón Karl Reynisson, Helga Hlín Hákonardóttir, Þóranna Jónsdóttir og Hreggviður Jónsson, sem er formaður stjórnar. Þá hefur Jón Björnsson verið ráðinn forstjóri Festi og mun hann taka samstundis til starfa.

Jón var áður forstjóri ORF Líftækni en hann hefur meðal annars gegnt starfi forstjóra Magasin du Nord og Haga hf.

Arctica Finance, BBA Legal og Deloitte veittu kaupendum ráðgjöf við kaupin en Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, Logos og KPMG voru ráðgjafar Norvik við söluna.