Úrvalsvísitalan féll um 0,48% í tæplega fjögurra milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þrettán af tuttugu félögum aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins, en þrjú voru græn.

Hlutabréf í Sýn hækkuðu mest allra á aðalmarkaði Kauphallarinnar í 380 milljóna veltu í dag, en bréf félagsins hækkuðu um 13,3% í viðskiptum dagsins.

Sjá einnig: Heiðar kaupir fyrir 115 milljónir í Sýn

Hlutafjárútboð Nova sem hófst í morgun kann að hafa áhrif á hlutabréfaverð Sýnar. Einn viðmælandi Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði benti á að EV/EBITDA, þ.e. hlutfall heildarvirðis á móti EBITDA-hagnaði, hafi verið 4,2 í lok maí en sama hlutfall var 8,2 hjá Nova, líkt og sjá má í fjárfestakynningu Nova. Sá samanburður gæfi til kynna að hlutabréf Sýnar hafi verið undirverðlögð að hans mati.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, keypti hlutabréf í félaginu fyrir 115 milljónir króna um hádegisbilið í dag. Tækifæri ehf., nýtt félag á vegum Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, eignaðist jafnframt eitt prósent hlut í Sýn í dag, sem er tæplega 150 milljóna króna hlutur að markaðsvirði.

Festi lækkar mest

Gengi bréfa hjá Festi lækkaði mest allra í viðskiptum dagsins, um 3,67% í 870 milljóna viðskiptum. Í gær tilkynnti Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, að hann hefði sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst næstkomandi.

Mest velta var hins vegar með bréf í Íslandsbanka. Gengi bréfa í bankanum hækkaði lítillega í 1,1 milljarða viðskiptum.

Á First North markaðnum hækkaði hlutabréfaverð í Play lítillega, eða um 0,28%. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 20% síðastliðinn mánuð og stendur gengið nú í 17,95 krónum á hlut, sem er lægra en útboðsgengið sem stóð almennum fjárfestum til boða í hlutafjárútboði félagsins fyrir um ári síðan.