*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 19. júlí 2021 19:02

Festi til rannsóknar vegna Dælunnar

Kaupendur Dælunnar hafa leitað til seljanda um lækkunar á kaupverði en ekki haft erindi sem erfiði.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur til skoðunar hvort Festi hafi brotið gegn skilyrðum sáttar, sem gerð var vegna samruna félagsins og N1, í tengslum við söluna á Dælunni. Kaupandi Dælunnar hefur sóst eftir því að kaupverð verði lækkað en þær umleitanir hafa ekki borið árangur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ákvörðun SKE um að heimila kaup Skeljungs á Port I en síðarnefnda félagið á bæði Dæluna og Löður. Í ákvörðuninni segir að óhjákvæmilegt hefði verið að taka til skoðunar hvort sölu Port I á dælunni mætti rekja til mögulegra vanefnda Festi.

„Af gögnum málsins virðist ljóst að Dælan hefur ekki náð sterkri fótfestu sem sjálfstæður og virkur keppinautur á markaðnum. Þannig hefur félagið ekki náð þeirri sölu sem áætlanir gerðu ráð fyrir og gefa væntingar um sölu, að öllu öðru óbreyttu, ekki til kynna að líklegt sé að félagið geti styrkt stöðu sína verulega á næstu misserum,“ segir í ákvörðuninni.

Meðal mögulegra skýringa að mati SKE er að afhending á Dælunni til nýrra eigenda hafi tafist og að vísbendingar séu um að viðskiptavinir Dælunnar hafi fylgt N1, þá „mögulega vegna tilboða eða sérkjara til fastra viðskiptavina“. Meðal þess sem er til skoðunar hjá SKE nú er hvort heildsölusamningur, sem N1 gerði við Dæluna, hafi verið í samræmi við skilyrði sáttarinnar.

Borgin vinni gegn samkeppni

Í ákvörðuninni kemur enn fremur fram að samningar borgarinnar við eldsneytisfyrirtæki, um fækkun bensínstöðva í borginni, hafi áhrif á markaðinn. SKE hefur ekki gert ágreining við borgina hvað fækkun bensínstöðva varðar en bent á að við þann gjörning sé framkvæmt samkeppnismat og tillit tekið til samkeppni.

„Af fyrirliggjandi gögnum virðist ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki í hyggju að fara að þessum tilmælum. Af þeim sökum er hætta á að aðgerðir Reykjavíkurborgar vinni gegn þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á markaðnum að undanförnu. Er hér vísað til þess aðaðgengi að eldsneyti í heildsölu er betra en áður, aðgangur að birgðarými er greiðari og fákeppniseinkenni markaðarins minni,“ segir í ákvörðun SKE.

Hvað samrunan sjálfan varðar þá er það mat SKE að ekki sé tilefni til íhlutunar í hann og því fær Skeljungur grænt ljós á að taka yfir Port I.