Kauphöllin hefur áminnt Landic Property hf. opinberlega og beitir félagið févíti upp á 1,5 milljón króna fyrir brot á reglum Kauphallarinnar. Ástæðan er sú að þann 29. apríl sl. birti félagið opinberlega tilkynningu þess efnis að það myndi ekki birta opinberlega ársreikning sinn fyrir árið 2008.

Kauphöllin vísar í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.) því til stuðnings. Áður hafði félagið tilkynnt að það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar.

Þann 7. maí sl. óskaði Kauphöllin eftir skýringum hjá útgefanda vegna þess og spurði m.a. um fyrirætlanir um birtingu ársreiknings, hvort ársreikningurinn innihéldi innherjaupplýsingar og hvort útgefandi hefði birt allar fjárhagsupplýsingar sem væru fjárfestum nauðsynlegar til að mynda sér skoðun á skuldabréfum hans sem fjárfestingarkosti. Skýringar útgefanda bárust þann 14. maí sl.