FH og Breiðablik eiga bæði rétt á samstöðubótum vegna sölu Gylfa Þórs Sigurðssonar til Tottenham. Samtals fá íslensku félögin á annan tug milljóna króna. Samstöðubætur eru fimm prósent af heildarkaupverði leikmanns en það er talið vera um 1,6 milljarðar króna — ef marka má fréttir í enskum miðlum. Miðað við þá tölu fær FH tæpar sjö milljónir í sinn hlut, Breiðablik um ellefu milljónir, Reading um 40 milljónir og Hoffenheim um 22 milljónir.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði mjög vel með Tottenham á undirbúningstímabilinu og skoraði falleg mörk í æfingaleikjum. Hann hefur hins vegar átt erfiðara uppdráttar í vetur og hefur þurft að verma varamannabekkinn í flestum leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um laun Gylfa en hann er launahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í dag með 40 milljónir íslenskra króna á mánuði. Barátta um sæti í Tottenham liðinu er hörð og margir góðir leikmenn þar fyrir. Gylfi verður því að komast í toppform ef hann ætlar sér að komast í byrjunarliðið.

Nánar má lesa um málið í ítarlegri umfjöllun í áramótatímariti Viðskiptablaðsins.