Um 40 nýir flugmenn hafa nú verið ráðnir til Icelandair síðan í haust og þessari ráðningarhrinu því senn að ljúka segir í frétt á heimasíðu FÍA. Þar kemur einnig fram að Flugfélag Íslands er búið að ráða 4 nýja flugmenn til starfa á F-50, sem koma í stað manna sem ráðnir hafa verið til Icelandair. Flugfélagið hyggst ráða a.m.k. 12 flugmenn fyrir næsta vor.

Nýr kjarasamningur milli Félags flugumsjónarmanna og Icelandair var undirritaður milli jóla og nýárs. Þar með hefur Icelandair lokið kjarasamningagerð við allar flugstéttirnar, þ.e.a.s. flugmenn, flugfreyjur, flugvirkja og flugumsjónarmenn. Flugfreyjur samþykktu nýgerðan kjarasamning í atkvæðagreiðslu fyrir fáeinum dögum, reyndar með naumum meirihluta atkvæða.