*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 29. nóvember 2018 18:31

FÍA tekur upp þráðinn við Icelandair

FÍA mun vinna áfram að hagræðingarleiðum með Icelandair eftir að fallið var frá kaupunum á Wow air.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair skrifuðu undir viljayfirlýsingu í morgun um að báðir aðilar væru reiðubúnir í frekari vinnu til að bæta samkeppnishæfni Icelandair og tryggja stöðu þess eftir að fallið var frá kaupunum á Wow air. FÍA birti viljayfirlýsinguna á samfélagsmiðlum í morgun en hefur síðan fjarlægt færsluna.

Viljayfirlýsingin sé framhald af viðræðum sem hófust við undirritun kjarasamninga FÍA og Icelandair í febrúar. „Þá skrifuðum við samhliða undir viljayfirlýsingu um að vinna að hagræðingaratriðum á þessu ári sem myndu koma flugmönnum og félaginu til góða og sú vinna hefur staðið yfir," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Kjarasamningur FÍA við Icelandair var eitt af þeim atriðum sem finna þurfti lausn á vegna hinna fyrirhuguðu kaupa á Wow air þar sem ákvæði er í samningnum um að flugmenn hjá Icelandair hafi forgang að fljúga flugvélum bæði Icelandair og dótturfélaga. Ef ekki hefði nást samkomulag um við FÍA og kaupin gengið í gegn hefði það því þýtt að flugmenn FÍA hjá Icelandair hefðu getað krafist þess að fljúga hjá Wow air, en þeir eru almennt á hærri launum en flugmenn Wow air. Það hefði í för með sér að launakostnaður Wow air hefði hækkað.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group, segir viðræðurnar við FÍA vegna Wow air hafa gengið ágætlega. „Það var í vinnslu eins og margt annað. Við áttum nokkra fundi og vorum að ræða tækifæri sem kæmu báðum aðilum til góða.“ Eftir að kom í ljós að ekki yrði af kaupunum hafi verið ákveðið að skrifa undir viljayfirlýsinguna og halda áfram að vinna að lausnum með flugmönnum FÍA.

Viljayfirlýsingin í heild:

„Í ljósi þess að fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group hf. á WOW air hf. og í framhaldi af kjarasamningi FÍA og Icelandair í febrúar s.l. eru aðila sammála um að leita áfram leiða til að bæta samkeppnishæfni félagsins, tryggja stöðu þess í núverandi starfsumhverfi og afla nýrra markaða. Markmiðið er að bæta nýtingu m.a. hvað varðar bæði tækjakost og mannafla með það að leiðarljósi lækka einingarkostnað.“

Stikkorð: Icelandair Bogi Nils Bogason Wow air FÍA
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is