Í fyrirhuguðum samruna bílaframleiðandanna Fiat Chrysler og PSA, sem framleiðir m.a. Peugeot bifreiðar, er gert ráð fyrir að langtímafjárfestar verði verðlaunaðir í formi auka atkvæðarétta. Með þessu er ætlunin að koma í veg fyrir yfirtökutilboð í fyrirtækið í nánustu framtíð. Reuters greinir frá.

Áætlanir gera ráð fyrir að umræddur 38 milljarða dollara samruni fari í gegn í næsta mánuði. Í kjölfarið munu þekkt bílavörumerki Fiat Chrysler á borð við Fiat, Jeep, Dodge, Ram og Maserati vera rekin undir sama hatti og bílavörumerkin Peugeot, Opel, Citroen og DS, sem eru hluti af PSA samstæðunni.

Sameinað félag mun bera nafnið Stellantis og er ætlunin að þeir fjárfestar sem hafa átt hluti í félaginu í a.m.k. þrjú ár, fái að launum aukið magn atkvæðarétta. Mun þetta að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins gera stjórnendaskipti og möguleg yfirtökutilboð erfiðari um vik.

Höfuðstöðvar móðurfélagsins Stellantis munu vera í Hollandi og er stefnt á að bréf félagsins verði skráð í París, Mílanó og New York.