Ítalsk-ameríski bílaframleiðandinn Fiat Chrysler skilaði 1,7 milljarða evra tapi á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020, en til samanburðar hagnaðist bílaframleiðandinn um 508 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Líkt og hjá mörgum fyrirtækjum er COVID-19 faraldurinn helsti sökudólgur taprekstursins, enda hefur eftirspurn eftir bifreiðum dregist verulega saman sökum hans. Reuters greinir frá þessu.

Bílaframleiðandinn hefur náð samkomulagi um samruna við franska bílaframleiðandann PSA Group, en meðal dótturfélaga franska bílaframleiðandans má nefna Opel, Peugeot og Citroen. Ef samruni félaganna verður að veruleika verður í kjölfarið til fjórði stærsti bílaframleiðandi í heimi. Að sögn forsvarsmanna Fiat Chrysler gengur vinnan á bakvið tjöldin í átt að samrunanum mjög vel.