Ítalski bifreiðaframleiðandinn Fiat á ekki í viðræðum við bandaríska bifreiðaframleiðandann Ford vegna hugsanlegra kaupa á Jagúar og Land Rover einingum fyrirtækisins. Þetta staðfesti stjórnarformaður Fiat, Luca Cordero di Montezemolo, á fréttaráðstefnu í Mílanó í gær. Uppi hefur verið orðrómur um að Ford hafi ráðið til sín Goldman Sachs og Morgan Stanley í því augnamiði að svipast eftir hugsanlegum kaupendum á Jagúar, Land Rover og einnig Volvo.

Einkafjárfestingarsjóðurinn Alchemy Partners neitaði jafnframt fréttum þess efnis að sjóðurinn væri að íhuga að leggja fram 3 milljarða punda tilboð í Land Rover og Jagúar.