Bílasala í Evrópu hefur að meðaltali fallið samfellt í fimm mánuði með slæmum afleiðingum fyrir framleiðendur á borð við Fiat, Mercedes, Jaguar og Saab. Heildar samdráttur í bílasölu í Evrópu er um 1,7% það sem af er ári, en mjög er þó misjafnt eftir svæðum hvernig bílasalan gengur og er ástandið gott í sumum löndum í norðanverðri álfunni.

Sala Fiat Group hefur hrapað um 25,5% í mestu efnahagskreppu á Ítalíu síðan heimsstyrjöldinni. Þá hafa neytendur haldið sig fjarri sýningarsölum bílaframleiðendanna og verkfall vörubílstjóra hefur gert illt verra og tafið afgreiðslu á þeim tiltölulega fáu bílum sem seljast. Haft er eftir Carlo de Benedetti, fyrrum yfirmanni Olivetti og fyrrum forstjóri Fiat á vefsíðu Business Telegraph, að ekkert geti nú bjargað þessu skuldum hlaðna fyrirtæki frá hörmulegu falli.

"Því miður verð ég að segja að Fíat á ekki lengur neina von. Það hefur átt í vandræðum vegna þess að fyrirtækið hefur verið verndað. Þeir sem njóta ofverndar bíða alltaf lægri hlut fyrir fyrsta mótlætinu sem þeir verða fyrir." Hann bætti því við að efnahagskreppan á Ítalíu væri miklu verri en flestir hefðu gert ráð fyrir.

Sala á bílum flaggskips DaimlerChrysler samsteypunnar hefur fallið um 12,8% og hefur Mercedes tapað markaðshlutdeild til BMW sem státar af 23% söluaukningu. Einnig til VW sem býr við 17,2% söluaukningu. Segir BT að BMW hafi tekið fram úr Mercedes á síðasta ári sem leiðandi merki í lúxusbílum.

Hið fræga Mecedes merki varð fyrir miklu áfalli í mars þegar innkalla þurfti 1,3 milljónir E- klassa og CSL- klassa bíla fyrirtækisins vegna gallaðra rafala og hugbúnaðar.

Þá hefur Jaguar fallið í sölu um 32,1% og Saab er með 11,9% fall í kjölfar vangaveltna um að General Motors vilji losa sig við sænska fyrirtækið eða jafnvel hætta algjörlega framleiðslunni. Saab hefur verið í stöðugu tapi í níu af tíu síðustu árum.

Tölur European Automobile Manufacturers Association sýna að bílasala á Ítalíu hefur fallið um 27.9% á meðan salan hefur aukist um 6,2% í Þýskalandi og um 8,4% í Frakklandi. Hins vegar féll bílasalan í Póllandi um 19,6% fyrstu fimm mánuði ársins.

Fullyrt er að offramleiðsla bílaframleiðenda í Evrópu nemi um 30% og margra mílna breiður séu fyrirliggjandi af óseldum bílum sem dugi til að þekja heilu flugvellina.