Lapo Edovard Elkan er yngsta barnabarn Gianni Agnelli, sem var aðaleigandi Fiat og ríkasti maður Ítalíu. Agnelli, sem lést árið 2003, þótti klár í viðskiptum og framsýnn. Mannkostir afans hafa ekki allir skilað sér niður erfðastigann. Aftur á móti hefur Lapo erft ýmislegt og ber þá helst að nefna tískuvit afans og löngunina til að lifa hinu ljúfa, sæta lífi — la dolce vita.

Agnelli gamli klæddi sig þannig að tekið var eftir. Jakkafötin voru ekki keypt í Herrafataverslun Birgis. Hann græddi á daginn og grillaði á kvöldin. Lapo eyðir peningum á daginn og grillar á kvöldin. Þess á milli er hann hundeltur af tískubloggurum því þegar kemur að klæðnaði er ekkert tilviljun hjá Lapo. Allt er útpælt. Það eru ekki bara bloggarar sem fylgjast með Lapo heldur einnig fjölmiðlar. Fyrr á þessu ár var hann til að mynda í viðtali hjá CNN Style, þar sem hann ók um á Ferrari og lýsti ást sinni á bílum einnig er hann reglulegur gestur síðum tískublaða eins og GQ og Vogue.

„Ég elti ekki tískuna — ég elti stíl," sagði Lapo í viðtali fyrir nokkrum árum. Þessi setning lýsir honum ágætlega.

Uppspuni í New York

Lapo hefur oft tekið krappar beygjur á lífsleiðinni og stundum misst stjórnina. Í lok nóvember komst hann í heimsfréttirnir fyrir að sviðsetja eigið mannrán í New York. Það segir sitthvað um Lapo að New York Times skrifaði grein um málið, sem birtist á tískusíðum blaðsins nema hvað.

„Þetta hljómaði eins og Scorsese áttunda áratugarins talandi í gegnum Fellini: Snyrtilegur, 39 ára gamall erfingi ítalsks iðnaðarveldis heldur því fram að honum sé haldið föngnum í íbúð á þriðju hæð á Manhattan, og hefur hann verið í sambandi við ættingja sína til að tryggja 10 þúsund dollara lausnargjald," segir í byrjun New York Times-greinarinnar.

Fljótlega kom í ljós að sagan var uppspuni. Lögreglan telur að Lapo hafi verið á djamminu. Hann hafi verið í íbúðinni í tvo daga en verið orðinn peningalítill eftir að hafa drukkið ótæpilega, reykt marijúana og notað kókaín. Með honum í íbúðinni var transmaður, sem hann hafði kynnst í gegnum fylgdar-vefsíðu (e. escort). Lapo hefur verið ákærður fyrir athæfið og verður mál hans tekið fyrir núna í lok janúar.

Nær dauða en lífi í Tórínó

Þessar fréttir hafa vafalaust verið reiðarslag fyrir ættingjana því Lapo hafði nefnilega náð sér ansi vel á strik og verið á góðu róli undanfarin ár eða allt síðan hann var lagður inn á spítala nær dauða en lífi eftir ofneyslu eiturlyfja í Tórínó árið 2005.

Kringumstæðurnar í Tórínó voru ótrúlega líkar því sem þær voru í New York á dögunum. Hann var að djamma með transfólki, vændiskonum og mönnum, sem hann hafði hitt úti á götu. Þau drukku saman og neyttu kókaíns. Svo þegar hann var búinn með allt sendi hann eftir meiru. Sagan segir að ein transkonan hafi komið tilbaka með heróín og það hafi slökkt á Lapo. Hann sofnaði og þegar fólkið tók eftir því að hann andaði ekki eðlilega var hringt á sjúkrabíl. Lapo var haldið sofandi á sjúkrahúsi í þrjá daga en náði að jafna sig. Mikill fjölmiðlasirkus varð í kringum málið á Ítalíu, eins og öll mál sem snerta Agnelli-fjölskylduna.

Nánar er fjallað um Lapo Elkann og Agnelli-fjölskylduna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér .