Stærsti bílaframleiðandi á Ítalíu, Fiat SpA, ráðleggur að taka yfir Maserati deild Ferrari SpA og tengja það við rekstur á Alfa Romeo deild félagsins. Með þessu hyggst Fiat efla lúxusbílaframleiðslu sína, en ekki hefur verið látið uppi hvað Fiat hyggst greiða fyrir Maserati. Fiat á 56% hlut í Ferrari sem gerir út hina sigursælu Formúlu 1 bíla, en búist er við að Fiat, sem átt hefur í miklum rekstarerfiðleikum, selji að einhverju eða öllu leyti hlut sinn Ferrari.

Samkvæmt fréttum Bloomberg er gert ráð fyrir náinni samvinnu Maserati og Alfa Romeo hvað varðar tæknilausnir og sölukerfi. Mun Fiat þar nýta sér sölukerfi á bílum Maserati sem seldir eru um allan heim. Eru Maserati bílar m.a. seldir í Bandaríkjunum í gegnum umboðsmenn Ferrari. Hins vegar hafa Alfa Romeo bílar ekki verið seldir í Bandaríkjunum. Alfa Romeo er eitt af þrem merkjum undir hatti Fiat og eru seldir um 180 þúsund Alfa Romeo bílar á ári.

Fiat fékk frjálsar hendur og full umráð yfir 5 bílgerðum samsteypunnar eftir 13. febrúar þegar ákveðið var að General Motors Corp. hætti við frekari áform um samstarf eða yfirtöku og gaf um leið eftir 10% eignarhlut sinn í félaginu. Þurfti GM reyndar að kaupa sig út úr félaginu fyrir umtalsverðar upphæðir til að losna undan málaferlum.