Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur gert úttekt á afkomutölum íslensku tryggingarfélaganna sem birt hefur verið í FÍB blaðinu. Segir þar m.a. að úttekt á afkomutölum tryggingafélaganna gefi glögga mynd af því hvernig þau misnotuðu bótasjóðina til að murka lífið úr FÍB tryggingu á árunum 1996 til 1999. Telur FÍB ljóst að Samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa staðið sig frámunalega illa þegar kemur að hagsmunum bíleigenda.

Bent er á frægan sofandahátt Samkeppnisstofnunar gagnvart samráði olíufélaganna. Þar hafði FÍB þegar árið 1993 bent Samkeppnisstofnun á órækar sannanir fyrir samráði um eldsneytisverð, en 7 ár hafi liðið þar til stofnunin tók við sér.

„Og hvað viðkemur samráði tryggingafélaganna þá er þáttur Samkeppnisstofnunar einstaklega vandræðalegur, svo vægt sé til orða tekið,” segir á vefsíðu félagsins.

Í úttektinni kemur fram að iðgjald ökutækjatrygginga hefur hækkað tvöfalt meira en almennt verðlag frá 1997 til 2008. Á þeim tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 67%, en iðgjöld lögbundinna ökutækjatrygginga um 147% á sama tíma samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Samkvæmt úttekt FÍB blaðsins hefur meðaliðgjald per ökutæki hækkað um 123% á þessum sama tíma. Ef iðgjöld ábyrgðartryggingar ökutækja hefðu fylgt vísitölu neysluverðs, þá hefðu þau (samkvæmt reikniaðferð FÍB blaðsins) átt að vera 38.550 kr. árið 2008, en voru í raun 51.580 kr.

Nokkru munar á útreikningum á hækkun iðgjalda með aðferð Hagstofunnar og aðferð FÍB blaðsins. Hagstofan mælir vísitöluna út frá verðskrám tryggingafélaganna en FÍB blaðið styðst við tölur úr rekstri tryggingafélaganna, sem fengnar eru frá Fjármálaeftirlitinu. FÍB reiknar út meðaliðgjald, sem dreifist á allar gerðir ökutækja, frá vélhjólum til vörubíla og allt þar á milli.

FÍB blaðið klikkir út með því að vitna til tilraunar FÍB við að reyna að brjóta á bak aftur einokunartilburði tryggingafélaganna með því að koma sjálft inn á tryggingamarkaðinn og segir:

„Ef tryggingafélögin hefðu ekki drepið af sér samkeppnina frá FÍB tryggingu á sínum tíma, þá má ætla að iðgjöldin hefðu hækkað í samræmi við vísitölu neysluverðs fremur en græðgisvísitölu tryggingafélaganna.”