Stjörnvöld áforma að leggja vegtolla á helstu þjóðvegi út frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdarstjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins.

Hann segir að það geti haft í för með sér tugþúsunda viðbótakostnað fyrir íbúa á þessu svæði sem sækja vinnu, skóla eða þjónustu á milli byggðarlaga.

„Með þessu ætla stjórnvöld að rjúfa þjóðarsátt sem lengstum hefur ríkt um fjármögnun íslenskra þjóðvega. Í henni hefur falist að notendur veganna greiði fyrir vegaframkvæmdir og viðhald vega með notkunarsköttum. Um þetta hefur ríkt almenn sátt þó upphæðir notkunarskattanna haf oft verið álitaefni,“ segir Runólfur í greininni.

Bensín- og dísilolíuskattar hækka

Runólfur segir að lesa megi þá fyrirætlan stjórnvalda að höggva enn í sama knérunn og hækka ennþá einu sinni bensín- og dísilolíuskatta. Þær hækkanir munu hafa í för með sér um 5,5 krónu hækkun á hvern lítra af bensíni.