Nýja starfið leggst vel í mig. Verkefnið er stórt og spennandi og hjá Reykjanesbæ starfar stór hópur góðs starfsfólks sem ég hlakka til að vinna með,“ segir Kjartan Már Kjartansson, nýr bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sem mun taka til starfa 1. september.

Hann segist byrjaður að undirbúa sig fyrir starfið með því að lesa og kynna sér eitt og annað. „Ég mun síðan gefa mér góðan tíma til þess að kynnast starfsfólkinu, sem ég þekki nú reyndar margt hvert nú þegar, og stofnunum á fyrstu dögum og vikum í starfinu,“ segir Kjartan Már.

Hann er ekki ókunnur því að vinna hjá sveitarfélaginu en hann vann í átján ár sem skólastjóri og kennari við tónlistarskólann og einnig sem bæjarfulltrúi og nefndarmaður í ýmsum nefndum um tólf ára skeið. Aðstoðarmaður íþróttaálfsins Kjartan Már er fæddur og uppalinn í Keflavík og hefur lengst af búið þar. Á námsárunum bjuggu þau hjónin þó í Reykjavík og í fararstjórastörfunum bjuggu þau til skamms tíma í senn í ýmsum löndum. Kjartan Már hefur fengist við mjög fjölbreytileg störf. Samhliða fiðlukennslunni hjá tónlistarskólanum vann hann hjá Samvinnuferðum Landsýn á sumrin sem fararstjóri víða erlendis í 13 sumur. Síðar vann hann sem fyrsti forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, starfsmanna- og gæðastjóri hjá Icelandair Ground Service, aðstoðarmaður Magnúsar Scheving í Latabæ og sem forstöðumaður verslunarsviðs Samkaupa. Síðustu sex ár hefur hann svo gegnt starfi framkvæmdastjóra Securitas á Reykjanesi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .