Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti á dögunum erindi á fundi sem haldinn var í samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Lögfræðingafélags Íslands. Í erindi sínu ræddi Jagland meðal annars um stöðu mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum og um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu, en hann hefur nýverið sent frá sér skýrslu um stöðu lýðræðis og mannréttinda í Evrópu. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Jagland að Ísland standi framarlega í mannréttindamálum í Evrópu. Hér á landi ríki ekki djúpstæð vandamál en þau sem ríki hér, sem snúa meðal annars að málefnum flóttamanna, geti Ísland unnið úr ásamt Evrópuráðinu. Jagland segir Evrópuráðið ekki sjá mikla spillingu á Íslandi en að mikilvægt sé að taka fyrirbyggjandi skref.

Spilling í íþróttum ógnar friðhelgi þeirra

Í erindinu greindi Jagland frá því að Evrópuráðið hafi spilað lykilhlutverk í íþróttum á þrennan hátt. Ráðið hafi lengi beitt sér gegn lyfjanotkun. Það hafi einnig komið af stað nýjum sáttmála sem vinnur gegn hagræðingu úrslita, og fjöldi íþróttasamtaka hefur innleitt. Ráðið hafi enn fremur beitt sér gegn spillingu í íþróttum með því að hvetja þjóðir til að samþykkja almenna sáttmála ráðsins gegn spillingu. Jagland segist telja að það gæti nýst samtökum eins og FIFA að nýta sér þekkingu, lagalegan staðal og sáttmála sem Evrópuráðið hefur þróað gegn spillingu

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .