Alþjóðaknattspyrnusambandið, Fifa, hefur krafist þess að bjór verði seldur á þeim knattspyrnuleikvöngum sem munu hýsa leiki í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu árið 2014.

Um þetta er nú deilt því nú er bannað að selja áfengi á knattspyrnuleikvöngum í Brasilíu, og hefur verið bannað frá 2003. Heilbrigðisráðherra Brasilíu hefur krafist þess að bannið verði áfram í gildi en nú eru til meðferðar hjá brasilíska þinginu ýmsar reglugerðir sem taka þarf til endurskoðunar í landinu áður en heimsmeistarakeppnin fer fram.

Endurskoðunin hefur þó tafist nokkuð og þá helst vegna deilu um það hvort leyfilegt verður að selja áfengi eða ekki á leikvöngunum á meðan keppnin fer fram. Jerome Valcke, framkvæmdastjóri Fifa, er nú staddur í Brasilíu en í frétt BBC um málið kemur fram að töfin hafi valdið forsvarsmönnum Fifa miklum áhyggjum. Þá eru einnig deilur um miðaverð til námsmanna og eldri borgara og verndun og notkun vörumerkja tengdum keppninni.

Í samtali við fjölmiðla í gærkvöldi hljómaði Valcke pirraður út í brasilísk stjórnvöld. Hann sagði áfenga drykki vera hluti af heimsmeistarakeppninni og því væri nauðsynlegt að selja þá þar.

„Þið afsakið ef ég hljóma hrokafullur, en þetta er eitthvað sem við semjum ekki um,“ hefur BBC eftir Valcke.

Áfengi var bannað á brasilískum knattspyrnuleikvöngum árið 2003 sem fyrr segir, en það var liður í því að reyna að minnka ofbeldi og stöðug átök á milli áhorfenda. Að sögn BBC hefur bannið þó haft takmörkuð áhrif. Áhorfendur staldri lengur við fyrir utan leikvanginn til að drekka og skemmta sér fyrir og eftir leiki.