Dótturfélag Kaupþings í Danmörku, FIH Erhvervsbank, sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem því er lýst yfir að lánasafn bankans sé traust þrátt fyrir lækkandi fasteignaverð í Danmörku. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

„Í tilkynningunni í dag segir FIH fullyrðingar fjölmiðla þess efnis að 47% af lánasafni bankans tengist fasteignamarkaði rangar. Hið rétta sé að 36% af lánasafni bankans sé gagnvart félögum tengdum fasteignamarkaðnum. Þar af séu 12,5% lán til fyrirtækja sem séu ótengd fasteignageiranum en vegna tæknilegra atriða eru fasteignir fyrirtækjanna sett í sjálfstæð fasteignafélög,“ segir í Vegvísi.

Hlutfall lánasafns FIH Erhvervsbank sem tengist fasteignamarkaðnum beint er því að sögn bankans aðeins 23,5%. Helmingur þeirra lána er svo í Danmörku en hinn helmingurinn í Þýskalandi og Svíþjóð. Niðurstaða bankans er því að safnið sé traust.

Kaupþing keypti bankann árið 2004. Í lok fyrsta fjórðungs 2008 var fjórðungur eigin fjár Kaupþings í FIH Erhvervsbank og 14% hagnaðar Kaupþings á fjórðungnum kom þaðan.