Mikil umskipti til hins betra hafa orðið á rekstri FIH Erhvervsbank í Danmörku á nýliðnum mánuðum og bankinn er farinn að skila ágætum hagnaði og arðsemi af eigin fé á nýjan leik eftir slæmt gengi og miklar afskriftir útlána á liðnum ársfjórðungum. FIH, sem er fimmti stærsti banki Danmerkur, hefur að vísu ekki verið neitt eyland í þeim efnum enda gæti ofangreind lýsing átt við langflesta banka og fjármálafyrirtæki í Evrópu.

Að öllu jöfnu gætu Íslendingar látið sér afkomu danskra banka í léttu rúmi liggja og kært sig kollótta um það hvort þeir töpuðu eða græddu fé. Það á þó ekki við um FIH Erhvervsbank þar sem hlutabréf í bankanum eru að veði fyrir 500 milljóna evra láni Kaupþings hjá Seðlabanka Íslands.