Stjórnendur danska bankans FIH Erhvervsbank hafa greitt megnið af þeim lánum sem danska ríkið veitti bankanum til að forða honum frá gjaldþroti. Lánin, sem fengust í gegnum danska björgunarpakkann svokallaða, námu upphaflega 50 milljörðum danskra króna, jafnvirði eitt þúsund milljörðum íslenskra króna. Lánin eru nú komin niður í 10 milljarða, samkvæmt frétt danska viðskiptablaðsins Börsen af málinu.

Börsen rifjar upp að fyrr í mánuðinum hafi FIH verið á meðal átta banka í Danmörku á svörtum lista danska fjármálaeftirltsins. Eftirlitið gerir athugasemdir við starfsemi bankans og sagði þörf á að auka eftirlit með rekstri hans þar sem ekki sé víst hvort hann ráði yfir nægu fjármagni til að standa við skuldbindingar sínar.

Þá er bent á að FIH tapaði einum milljarði danskra króna í fyrra og neyddist til að afskrifa eignir upp á 300 milljónir.

FIH á borði fjárlaganefndar

FIH var í eigu Kaupþings fyrir hrun. Rétt áður en Kaupþing fór á hliðina í október árið 2008 lánaði Seðlabankinn bankanum 500 milljónir evra með veði í FIH. Lánveitingin hefur um skeið verið á borði fjárlaganefndar Alþingis en meirihluti hennar vill að Seðlabankinn afhendi afrit af samtali þeirra Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde forsætisráðherra þar sem talið er að ákvörðun hafi verið tekin um að veita lánið. Helmingur lánsins hefur skilað sér til baka.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag sagði að ástæða þess að afritið hafi ekki verið afhent sé sú að Geir hefur ekki veitt Seðlabankanum heimild til þess.