Danski bankinn FIH sem KB banki vinnur að yfirtöku á birti uppgjör fyrir fyrri helming ársins í dag. Hagnaður FIH eftir skatta nam 315 milljónum danskra króna (DKK) eða 3,7 milljörðum íslenskra króna og jókst frá fyrra ári þegar hann nam 279 m.DKK. Arðsemi eigin fjár eftir skatta er 10,2% á ársgrundvelli, en töluvert mikið eigið fé er bundið í bankanum. CAD hlutfall í lok júní var 12,1% en þar af nam eiginfjárþáttur A 10,6%.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að hreinar rekstrartekjur voru 499 m.DKK og drógust saman um 4%. Á móti kemur að gengishagnaður af markaðsverðbréfaeign var jákvæður um 33 m.DKK á fyrri helmingi þessa árs en neikvæður um 22 m.DKK í fyrra. Jafnframt var framlag í afskriftarreikning útlána nær þrefalt minna í ár en í fyrra, eða 17 m.DKK í stað 48 m.DKK. Framlag í afskriftareikning nemur 0,03% af útlánum. Sögulega hefur FIH verið með mjög lítil útlánatöp. Þannig hafa útlánatöp ekki farið yfir 0,2% af útlánum síðastliðinn áratug.

Heildareignir FIH námu 66 mö.DKK ) í lok annars ársfjórðungs og hafa minnkað lítillega frá því í byrjun árs. Af eignum bankans eru útlán langstærsti þátturinn, eða 55 ma.DKK en næststærsti liðurinn eru markaðsverðbréf en þau nema 7 mö.DKK.

Upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir að hagnaður FIH myndi lækka lítillega á milli ára. Fram kemur í tilkynningunni að í ljósi þess árangurs sem hafi náðst á fyrri helmingi ársins og væntinga um betri efnahagsskilyrði, þá sé nú gert ráð fyrir að hagnaður ársins verði 600 m.DKK en til samanburðar var hagnaður síðasta árs 567 m.DKK. Í verðmati Greiningardeildar á KB banka frá því í júní sl. var gert ráð fyrir að FIH myndi skila 578 m.DKK í hagnað á árinu. Mismunurinn liggur í vaxtamuninum sem er meiri en gert var ráð fyrir.