FIH Kaupþing í Danmörku mun fjármagna kaup sænska fjárfestingasjóðsins Industri Kapital (IK) á danska vinnufatafyrirtækinu Kwintet, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

FIH fjármagnar kaupin ásamt norræna bankanum Nordea. Danska blaðið Jyllands Posten segir kaupverðið í kringum 400 milljónir evra, sem samsvarar 8,5 sinnum hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA). Viðskiptablaðið hefur ekki fengið kaupverðið staðfest en ef það reynist rétt er ekki ólíklegt að lánin vegna kaupanna séu í kringum 250-300 milljónir evra.

Seljandi Kwintet er danski fjárfestingasjóðurinn Axcel AS. Tekjur Kwinted hafa aukist verulega frá því að Axcel keypti félagið árið 1999. Áætlaðar sölutekjur í ár nema um 390 milljónum evra en voru 255 milljónir evra árið 1999.