FIH, sem eitt sinn hét FIH Erhvervsbank og var í eigu Kaupþings og síðar Seðlabanka Íslands, hefur skilað inn rekstrarleyfi sínu sem viðskiptabanki. Fyrirtækið verður því ekki lengur háð eftirliti danska fjármálaeftirlitsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birtist á vef fyrirtækisins í dag.

FIH framseldi alla innlánsreikninga sína til Nykredit í gær. Viðskiptin milli FIH og Nykredit hafa staðið til í nokkurn tíma, en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá þeim í júní 2014. FIH sinnir nú eingöngu ráðgjöf auk þess að eiga útlán upp á um 4 milljarða danskra króna.

FIH hefur nú um það bil 300 viðskiptavini og af þeim eru 40 í afleiðuviðskiptum við FIH. Vegna þessara afleiðuviðskipta hefur verið stofnað sérstakt félag, FIH II A/S, sem hefur fengið rekstarleyfi sem fjárfestingarráðgjafi frá danska fjármálaeftirlitinu.

FIH Erhvervsbank var í eigu Kaupþings en rétt fyrir bankahrun í október 2008 tók Seðlabanki Íslands eignarhlutinn yfir sem veð vegna 500 milljóna evra þrautarvaraláns. Bankinn var seldur til danskra og sænskra aðila árið 2010.