Danski bankinn FIH hefur uppfært virði eigna Axcel III-sjóðsins um 29,9 milljónir danskra króna, jafnvirði tæpra 600 milljóna íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Það skýrist einkum af gengishækkun skartgripafyrirtækisins Pandora á markaði. Á afskriftareikning á fyrstu sex mánuðum ársins færði bankinn hins vegar 345 milljónir danskra króna, jafnvirði 6,8 milljarða íslenskra.

Gengi hlutabréfa Pandora er hluti af þeim þáttum sem ákvarða virði seljendaláns Seðlabankans til eigenda danska bankans FIH í gegnum virði Axcel III. Gengi bréfanna tók sprettinn eftir að skartgripaframleiðandinn birti hálfsársuppgjör sitt á dögunum. Það stendur nú í 82,9 dönskum krónum á hlut og jafngildir það um 40% hækkun frá áramótum.

Bankastjórinn segir lánið tapað

Seðlabankinn lánaði Kaupþingi rúma 80 milljarða króna með veði í bankanum í miðju bankahruni. Þegar Kaupþing féll gekk Seðlabankinn að veðum og seldi FIH haustið 2010. Bankinn fékk 40 milljarða króna fyrir hlutinn auk þess sem 64 milljarða átti að greiða síðar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá átti að draga frá upphæðinni tap FIH fram til loka árs 2014. Auk þess er greiðsla lánsins tengd mögulegum hagnaði FIH af Axcel III sjóðnum og gengi skartgripafyrirtækisins Pandora ásamt afkomu þeirra fjárfesta sem keyptu bankann fram til loka árs 2015.

Gengishækkun Pandora þýðir þó ekki að Seðlabankinn geti fagnað strax því hlutabréf Pandora voru metin á vel yfir 300 danskar krónur á hlut þegar  best lét í byrjun árs 2011. Næstum 300% hækkun vantar því upp á til að virði félagsins nái fyrri hæðum og fari að skila aurum í kassa Seðlabankans.

Danski viðskiptamiðillinn FinansWatch greindi frá því reyndar í júní að meira en helmingur upprunalegs söluverðmætis FIH hafi þurrkast út frá því Seðlabankinn seldi danska bankann. FinansWatch hafði jafnframt eftir Bjarne Graven Larsen, bankastjóra FIH, að fyrirsjáanlegur taprekstur bankans á næstu árum komi til með að eyði út frekari greiðslum til Seðlabankans.

.