*

miðvikudagur, 23. september 2020
Erlent 29. júní 2020 15:40

Fillon dæmdur fyrir fjárdrátt

Fyrrum forsætisráðherra Frakklands hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi, þar af þrjú skilorðsbundin, vegna fjárdráttar.

Ritstjórn
Francois Fillon, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, bauð sig fram til forseta árið 2017.
epa

Francois Fillon, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, hefur verið dæmdur fyrir fjárdrátt eftir að hafa borgað eiginkonu sinni meira en eina milljón evra úr ríkissjóði fyrir störf sem hún vann aldrei. Financial Times segir frá

Málið afvegaleiddi forsetaframboð Fillon árið 2017 og gerði Emmanuel Macron kleift að sigra kosningarnar. Fillon hafði verið leiðandi frambjóðandi áður en málið kom upp. 

Fillon var dæmdur í fimm ára fangelsi, þar af þrjú skilorðsbundin, af frönskum dómstól fyrr í dag. Honum verður einnig bannað að gegna opinberu embætti í tíu ár og gert að greiða 375 þúsund evra sekt.  

Sjá einnig: Fillon hvergi banginn

Saksóknarar sögðu að það hafi myndast venja hjá Fillon að „hrifsa til sín opinbera peninga með því að brjóta reglurnar“ og hann þróað „djúpstæða tilfinningu af refsileysi, sökum fullvissu um að staða hans myndi draga kjark úr öllum sem hygðust lögsækja hann“.

Breska eiginkona hans, Penelope, og aðstoðarmaður hennar Marc Joulard voru einnig fundin sek og voru dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi. Joulard fékk einnig 20 þúsund evra sekt.

„Þessari óréttlátu ákvörðun verður áfrýjað. Það verða önnur réttarhöld,“ sagði Antonin Lévy, lögmaður Fillon. 

Stikkorð: Francois Fillon